Englar og menn í Strandarkirkju

Englar og menn í Strandarkirkju

Hin árlega tónlistarhátíð, Englar og menn í Strandarkirkju hefst sunnudaginn 7. júlí nk. og stendur yfir í júlímánuði með tónleikum á sunnudögum kl. 14.
Á fyrstu tónleikunum koma fram Björg Þórhallsdóttir sópran, Áslákur Ingvarsson baritón, Elísabet Waage hörpuleikari, Matthías Stefánsson fiðluleikari, Örnólfur Kristjánsson sellóleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti.
Yfirskrift tónleikanna er ,,Ó, Ísland fagra ættarbyggð" sem er ljóðlína úr verðlaunaljóði Huldu, Hver á sér fegra föðurland. Emil Thoroddsen samdi lagið við ljóðið, hina stórkostlegu þjóðhátíðarperlu sem var verðlaunalag árið 1944, en í ár eru 80 ár frá stofnun íslenska lýðveldisins.
Á efnisskránni eru íslensk sönglög eftir Emil Thoroddsen, Sigvalda Kaldalóns, Atla Heimi Sveinsson, Thomas Stankiewicz o.fl., ásamt tónlist eftir J. Brahms, F. Schubert ,Saint-Saens o.fl. þekktum perlum úr heimi tónbókmenntanna.
Tónleikarnir hefjast kl. 14 og aðgangseyrir er 4.000 kr.
Stofnandi og listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona.Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Tónlistarsjóði.