Sigurður Hermannsson, kirkjuvörður Hjallakirkju í Ölfusi er látinn.
Sigurður fæddist í Gerðakoti í Ölfusi 13. júní 1943. Foreldrar hans voru hjónin Sólveig Sigurðardóttir og Hermann Eyjólfsson og var hann yngstur sjö barna þeirra. Sigurður ólst upp í Gerðakoti og unni sveit sinni og átthögum, reyndar svo mjög að lögheimili átti hann þar í sjötíu ár. Til ársins 2013 var Sigurður bóndi í Gerðakoti en síðustu árin bjó hann á Selfossi. Sigurður lést á Landspítalanum þann 17. nóvember eftir stutta sjúkralegu.
Hjallakirkja í Ölfusi var Sigurði mjög kær. Af bæjarhlaðinu horfði hann á kirkjuna og umhyggjan og virðingin fyrir henni greiptist í sál hans strax á barnsaldri. Sigurður var kirkjuvörður og meðhjálpari í kirkjunni og safnaðarfulltrúi í sóknarnefnd Hjallasóknar um langt árabil. Öll störf sín fyrir kirkjuna innti hann af höndum af kærleika og með gleði. Sóknarnefnd Þorláks- og Hjallasóknar þakkar fórnfús og óeigingjörn störf Sigurðar í þágu Hjallakirkju.
Guð blessi minningu Sigurðar Hermannssonar.